Jón B Birgisson


Jón B Birgisson

Jón hefur starfað fyrir Rauða krossinn í rúman aldarfjórðung, fyrst sem sjálfboðaliði en sem starfsmaður síðastliðin 13 ár. Hann hefur samhæft neyðaraðgerðir Rauða krossins í hundruðum aðgerða, þ.m.t. í kjölfar helstu atburða sem orðið hafa hér á landi síðustu áratugi.

Innanlandssvið Rauða krossins heldur utan um öll helstu verkefni Rauða krossins innanlands, s.s. neyðarvarnir, sjúkrabíla, skyndihjálp, aðstoð við flóttafólk og farendur og stuðning við deildir félagsins um allt land.

Jón starfaði að gerð viðbragðsáætlunar ICRC vegna vopnaðra átaka í Armeníu árið 2016. Hann hefur tekið þátt í uppbyggingu neyðarvarna meðal landsfélaga Rauða krossins í Kákasusfjöllum síðustu ár. Síðast fór Jón sem sendifulltrúi í skipulagningu á dreifingu hjálpargagna til Norður-Grænlands eftir flóðbylgju sem varð í Uummannaq-firði sumarið 2017.

Fjöldahjálparkerrur Rauða krossins

14 okt. 09:30 - 10:15

Rauði krossinn á Íslandi leiðir fjöldahjálp og sálfélagslegt hjálparstarf í skipulagi almannavarna á Íslandi. Félagið hóf vinnu við eflingu á neyðarbúnaði um allt land árið 2015. Ný fjöldahjálparkerra Rauða krossins er liður í straumlínulögun og aukinni fagmennsku félagsins á landsvísu. Kerrurnar hafa verið staðsettar þar sem reynslan sýnir að fjöldahjálparstöðvar séu reglulega opnaðar. Sumar þeirra eru í alfaraleið svo einfalt sé að flytja þær á milli landshluta þegar þörf krefur.

Kerran inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð, en hann samanstendur af beddum, teppum, öryggisbúnaði, hreinlætisvörum, rafstöð, snarli, vatnsbrúsum, skyndihjálparbúnaði, verkfærum, slökkvitæki og vörum fyrir konur og börn. Í undirbúningi er að koma fyrir samskiptabúnaði í kerrunum svo sem þráðlausu Neti og hleðslustöðvum fyrir farsíma.

20 kerrur hafa verið útbúnar og von er á fleirum í samstarfi við ISAVIA.