Samantekt á óbyggðaslysum á 2 ára tímabili


Samantekt á óbyggðaslysum á 2 ára tímabili

Um fyrirlestur
22/10/2022 11:00 - 11:45
Kaldalón

Ágrip
BAKGRUNNUR
Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL) eru öflug sjálfboðaliðasamtök sem sinna um 1200 útköllum á ári hverju. Hluti þeirra útkalla varðar björgun slasaðra eða veikra einstaklinga. Ekki liggja fyrir rannsóknir á þeirri þjónustu sem SL veitir við þessar aðstæður.

MARKMIÐ
Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um heilbrigðisþjónustu sem SL veitti á árunum 2017-2018, hvort um slys eða veikindi var að ræða, hvort veitt hafi verið viðeigandi meðferð á vettvangi og hver afdrif einstaklinganna voru.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Upplýsingar voru fengnar úr rafrænum aðgerðagrunni SL. Skoðuð voru þau tilvik þar sem fólk þurfti flutning og meðferð á heilbrigðisstofnun. Út frá Björgum, skráningarkerfi Neyðarlínu, var hægt að nálgast kennitölur og voru endanlegar greiningar og afdrif viðkomandi fengnar úr SÖGU-kerfi og Heilsugátt.

NIÐURSTÖÐUR
Alls voru 189 aðgerðir teknar inn í rannsóknina með 239 manns. Flestar aðgerðir voru skráðar á Suðurlandi. Í rúmlega helmingi tilfella var um karlmenn að ræða og meðalaldur var 44,4 ár. Slys voru mun algengari en veikindi, eða 86% tilvika. Algengast var að fólki skrikaði fótur, hrasaði eða félli sem leiddi til áverka á neðri útlim. Af þeim sem veiktust voru hjartatengd vandamál algengust. Í yfir 70% aðgerða var ekki skráð rafrænt hvaða meðferð var beitt á vettvangi eða hvaða búnaður var notaður.

ÁLYKTANIR
Björgunarsveitir þurfa reglulega að veita heilbrigðisþjónustu. Algengast er að björgunarsveitir sinni einstaklingum eftir slys sem oftast verða á neðri útlim. Veikindi sem sinnt er af björgunarsveitum eru oftast tengd hjartasjúkdómum. Skráning á notkun búnaðar og meðferðar á vettvangi er ónákvæm og má bæta.

Fyrirlesarar