Jón Magnús Kristjánsson


Jón Magnús Kristjánsson

Jón Magnús Kristjánsson bráðalæknir er settur yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala. Jón Magnús er sérfræðingur í bráðalækningum og almennum lyflækningum frá Háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Hann hefur starfað sem sérfræðingur á bráðadeild frá árinu 2010. Hann hefur einnig starfað fyrir alþjóðlega Rauða krossinn við hjálparstörf á náttúruhamfara- og stríðsátakasvæðum. Hann hefur síðastliðið ár verið staðgengill Hilmar Kjartanssonar yfirlæknis og komið að fjölmörgum umbótaverkefnum fyrir hönd bráðadeildar. Jón verður áfram formaður fjöláverkaráðs LSH.

Bráðaviðbrögð Landspítala við hópslysum – Ástand og afdrif slasaðra úr tveimur rútuslysum

14 okt. 11:30 - 12:15

Bakgrunnur: Fjöldi ferðamanna á heimsvísu er sífellt að aukast sem leiðir til aukinnar hættu á hópslysum. Starfsemi sjúkrahúsa er meira og minna við fulla getu en við hamfarir og hópslys bætast margþætt verkefni við. Sérhæfing starfsfólksins í meðferð bráðra veikinda og áverka veldur því að sjúkrahús gegna veigamiklu hlutverki við slíka atburði. Viðbragðsæfingar hafa reynst auka líkur á markvissari viðbrögðum og þjónustu í raunverulegum hópslysum en mikilvægt er að gagnreynd þekking liggi að baki viðbragðsáætlunum.

Markmið: Að lýsa og greina hóp slasaðra sem fluttir voru á Landspítala eftir tvö rútuslys, komuástand, flutning, meðferð og afdrif þeirra.

Aðferðir: Gögnum var aflað úr sjúkraskrám Landspítala um þá sjúklinga sem komu á spítalann eftir rútuslys á Mosfellsheiði 25. október 2016 og í Eldhrauni 27. desember 2017. Sjúklingar úr hvoru slysi voru skoðaðir út frá kyni, aldri, þjóðerni, vitneskju um bílbeltanotkun, tegund flutnings og flutningstíma, komuástandi og afdrif eftir komu á bráðamóttöku.

Niðurstöður: Af 42 farþegum rútu sem valt á Mosfellsheiði 2016 voru 15 fluttir strax á Landspítala til aðhlynningar með sjúkrabíl, 27 fengu aðhlynningu í fjöldahjálparstöð Rauða krossins og þar af komu 2 á Landspítala seinna um daginn. Enginn lést en 2 voru lagðir á gjörgæslu. Eftir slysið í Eldhrauni (n=45) voru 33 farþegar fluttir á bráðamóttöku HSU en 12 fluttir með þyrlu á Landspítala (8 rauðir (brátt) og 4 gulir (liggur á)), af þeim fóru 2 í skurðaðgerð og 4 á gjörgæslu, 2 útskrifuðust af spítalanum samdægurs. Einn farþegi lést strax og einn 18 dögum síðar.

Ályktanir: Vonast er til að rannsóknin auki gagnreynda þekkingu á sjúklingatengdum þáttum í hópslysum, forgangsflokkun, flutningi og afdrifum sem nýst geta við skipulag viðbragða á vettvangi og á Landspítala.